Færsluflokkur: Bloggar
19.4.2009 | 14:22
Félagshyggjuverðlaun Ungra Jafnaðarmanna
Félagshyggjuverðlaun Ungra Jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, voru veitt í föstudaginn 18.04. Í ár voru það Akranesdeild Rauðakrossins og Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta sem heiðruð voru fyrir óeigingjarnt starf í þágu þeirra sem minna mega sín á erfiðum tímum.
-Akranesdeild Rauða krossins.
Fyrir störf í þágu flóttafólks og innflytjenda. Í september 2008 komu 29 flóttamenn, 8 konur og 21 barn, til Íslands frá flóttamannabúðunum Al Waleed í Írak. Rauði Kross Akraness tók á móti fólkinu og bjó í haginn fyrir það í nýjum heimkynnum. Auk þess hafa samtökin staðið að ýmiss konar fræðslu og starfi fyrir innflytjendur. Þannig hefur Akranesdeild Rauða krossins gert hópum fólks kleift að hefja nýtt líf á öruggum stað. Auk þess hefur starf hennar varpað ljósi á þær erfiðu aðstæður sem fólk um víða veröld býr við og stuðlað að því að íslenskt samfélag verði fjölbreytilegra og auðugra.
-Guðrún Jónsdóttir
Fyrir störf hjá Stígamótum. Guðrún hefur um árabil barist gegn kynferðisofbeldi og hlúð að þeim sem fyrir því verða. Hún hefur verið í fararbroddi þeirra sem vekja athygli á og sporna gegn slíku ofbeldi og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Íslands. Þannig hefur Guðrún hjálpað fjölda fólks og vakið athygli á ofbeldi og grófu misrétti sem lengi fór hljótt.
Það er mikilvægur þáttur í starfsemi Ungra Jafnaðarmanna vera einskonar samfélagsleg broddfluga sem bendir óþreytandi á það sem betur má fara. Hitt er þó einnig mikilvægt að sjá það sem vel er gert, hrósa því og hvetja þá aðila sem að slíkum verkum standa til frekari dáða. Ungir Jafnaðarmenn óska Akranesdeild Rauðakrossins og Guðrúnu Jónsdóttir til hamingju með verðlaunin og biðja þeim gæfu á komandi tímum.
Ég sendi jafnframt mínar bestu hamingjuóskir og þakklæti til þessa ágæta fólks fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannúðar og jafnréttis.
myndir í myndaalbúmi merktar UJ
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2009 | 14:01
Heimsókn til Sauðárkróks
Um 30 manns komu á kosningamiðstöðina á Sauðárkróki þar sem ég og fleiri sáum um að grilla, ljúf tónlist var leikin og allir tóku vel til matar síns. Ómar Ragnarsson fór með gamanmál eins og honum einum er lagið og við sungum saman baráttulagið ,,Frelsi, jafnrétti og bræðralag:" Ég fór síðan á kórtónleika á Blönduósi og ball á eftir, en hafði fyrr um daginn verið í rósadreifingu í Borgarnesi og fjölskyldukaffi þar með Samfylkingarfólki. Frábær dagur !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2009 | 14:45
Vinna og velferð - Velferðarbrúin
Íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum efnahagshrun og stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að reisa við hag einstaklinga, fjölskyldna og heimila, endurreisa bankakerfið, atvinnulífið, tryggja næga atvinnu og lífsafkomu til lengri tíma. Íslenska þjóðin þarf að byggja upp nýtt samfélag en spurningin er, hvernig samfélag viljum við byggja? Viljum við samskonar þjóðfélag einkavinavæðingar og samtryggingar?
Eða ætlum við að endurskoða hlutina og tryggja meira réttlæti, jöfnuð, lýðræði og gagnsæi en verið hefur? Ætlum við að útrýma því misrétti og þeim ójöfnuði sem var vaxandi í okkar þjóðfélagi á síðasta áratug?
Þetta eru grundvallarspurningarnar sem Alþingis-kosningarnar snúast um nú í vor.
Val kjósenda er mikilvægt
Samfylkingin býður fram gildi jafnaðarstefnunnar, lýðræðislegt opið og frjálst samfélag, byggt á réttlæti og jafnrétti milli ólíkra hópa, kynja og byggðalaga. Sérstök áhersla er lögð á að efnahagur fólks eða búseta skipti þjóðinni ekki í hópa líkt og verið hefur.
Það skiptir máli og hefur aldrei verið mikilvægara en nú, hver leiðir komandi ríkisstjórn, hver leiðir kjördæmið okkar, hverjir stýra landinu að loknum kosningum. Val kjósenda er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Samfylkingin hefur með aðgerðum sínum og tillögum mótað heildstæða áætlun, sem kallast Velferðarbrúin". Markmiðið er að styrkja stöðu heimilanna í landinu á ábyrgan hátt, án gylliboða. Áætlunin samanstendur af mörgum, en markvissum aðgerðum sem allar hafa það að markmiði að vísa skuldsettum heimilum leiðina yfir brúna, yfir erfiðleikana. Tryggja verður öruggt húsnæði og lágmarksafkomu fyrir einstaklinga og fjölskyldur þessa lands, ekki hvað síst barnafólks. Lögð er áhersla á greiðslubyrði verði aðlöguð að greiðslugetu heimilanna til að koma í veg fyrir gjaldþrot með tilheyrandi afleiðingum.
Aðgerðir fyrir alla
Flest úrræðin miða við hjálp til sjálfshjálpar og snúa fyrst og fremst að þeim er þurfa á aðstoð að halda. Þegar hefur Íbúðarlánasjóður og nú einnig bankar og lífeyrissjóðir, boðið upp á fjölbreytt úrræði s.s. frystingu eða lengingu lána, frestun afborgana og ýmiss konar samninga og endurfjármögnun. Þá hafa verið samþykkt lög er heimila fólki að taka út séreignasparnað, dráttarvextir verið lækkaðir og nauðungaruppboðum frestað. Aðal aðgerðirnar eru þó stórhækkun á endurgreiðslu vaxta- og verðbóta, sem skilar sér best til þeirra sem hafa lent verst í verðbólgu liðins árs, aðgerð sem nær beint til þeirra sem skuldsettir eru. Önnur aðgerð var greiðslujöfnun, þar sem heimilt er að miða afborganir við launavísitölu að teknu tilliti til atvinnuleysis. Í þriðja lagi má nefna greiðsluaðlögun, þar sem skuldir eru afskrifaðar og aðlagaðar greiðslugetu, en það úrræði hentar þeim skuldsettustu. Loks er verið að ganga frá yfirfærslu á myntkörfulánum yfir í íslenska mynt, en sú aðgerð er vandasöm og viðkvæm. Vonandi tekst hún vel. Samhliða þessu náðist sá merki áfangi að afnema ábyrgðarmanna-kerfið við lántöku. Öll þessi úrræði eru brúarstólpar í velferðarbrúnni og búa þannig til færa leið yfir erfiðleikana. Þessari brúarsmíð er ætlað að tryggja að ALLIR komist yfir erfiðleikana og geti byggt upp að nýju góða örugga framtíð innan skamms tíma.
Réttlætið vísar veginn
Það reynir á okkur öll í uppbyggingunni, það reynir á samhjálp og samvinnu, það reynir á sveitarfélög og ríki. Forsenda þess að vel takist til er örugg stjórn og rétt grunngildi sem höfð eru að leiðarljósi við uppbygginguna. Samfylkingin býður fram þessi gildi, traust fólk til forystu og bendir á fjölþættar leiðir til að ná markmiðunum. Endurreisn þjóðfélagsins verður því hraðari og traustari sem varlegar er farið í skuldsetningu þjóðarbúsins. Gæta þarf fyllsta aðhalds og hagkvæmni í rekstri ríkisins og forgangsraða þarf verkefnum í þágu fólksins. Það er í höndum kjósenda hverjum þeir treysta best til að leiða þjóðina yfir erfiðleikana. Við frambjóðendur Samfylkingarinnar bjóðum fram okkar þjónustu og vinnu, byggða á skýrri sýn á hvert skuli stefna. Vinnan og velferðin verða í forgrunni, hagsmunir almennings og réttlætið munu vísa okkur veginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 23:08
Landsfundur Samfylkingarinnar 27.- 29.mars
Guðbjartur var einn þingforseta, í stjórn málefnahóps um velferð og tók þátt í pallborðsumræðum.
Landsfundur Samfylkingarinnar var haldinn í Smáranum sl. helgi og var einn sá fjölmennasti frá upphafi. Þar ríkti gleði og góður andi sem náði hámarki þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Dagur B. Eggertsson tóku við nýjum hlutverkum sínum í stjórn flokksins. Jóhanna kom því vel til skila að hún væri enginn bráðabirgðaformaður eins og pólitískir andstæðingar hafa verið að gaspra um. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi formaður flokksins kvaddi að sinni en vonandi aðeins um stundarsakir.
Þrátt fyrir að skiptar skoðanir væru um ýmsar samþykktir, var ekki annað að sjá en lýðræðið virkaði vel.
Evrópumálin voru umfangsmikil og ánægjulegt að Samfylkingin tók það skref að lýsa yfir stuðningi við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2009 | 21:11
Tillaga: Sáttagjörð um fiskveiðistefnu
Málefnanefnd 6
Undirhópur um sjávarútvegsmál Þingskjal 2.6.1.2.
Tillaga til nefndarinnar:
Sáttagjörð um fiskveiðistefnu
Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands verði fiskveiðistefnan strax að loknum kosningum endurskoðuð í þeim tilgangi að skapa sátt við þjóðina um nýtingu auðlinda hafsins.
Markmið stefnunnar er:
- Að tryggja eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins.
- Að stuðla að atvinnusköpun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.
- Að uppfylla skilyrði um jafnan aðgang að veiðiheimildum og uppfylla þar með kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
- Að auðvelda nýliðun í útgerð.
- Að tryggja þjóðhagslega hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna.
Aðgerðir til að ná þessum markmiðum:
- Þjóðareign á sjávarauðlindum verði bundin í stjórnarskrá með samþykkt þess stjórnarfrumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi. Markmið slíks ákvæðis um þjóðareign er að tryggja þjóðinni ótvíræð yfirráð allra sjávarauðlinda til framtíðar og fullan arð af því eignarhaldi.
- Stofnaður verður Auðlindasjóður sem sjái um að varðveita og ráðstafa fiskveiðiréttindum í eigu þjóðarinnar.
- Arður af rekstri Auðlindasjóðs renni einkum til sveitarfélaga og verði einnig notaður til annarra samfélagslega verkefna, s.s. haf- og fiskirannsókna. Kannaðir verði kostir þess að fela Auðlindasjóði jafnframt umsýslu annarra auðlinda í þjóðareign og felur fundurinn framkvæmdarstjórn að skipa starfshóp sem útfærir nánar tillögur um Auðlindasjóð.
- Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði innkallaðar eins fljótt og auðið er og að hámarki á 20 árum.
- Framsal aflamarks í núgildandi aflamarkskerfi verði einungis miðað við brýnustu þarfir.
- Auðlindasjóður bjóði aflaheimildir til leigu. Greiðslum fyrir aflaheimildir verði dreift á það ár sem þær eru nýttar á. Framsal slíkra aflaheimilda er bannað. Útgerðum verði gert skylt að skila þeim heimildum til Auðlindasjóðs sem þær ekki nýta.
- Frjálsar handfæraveiðar verði heimilaðar ákveðinn tíma á ári hverju. Sókn verði m.a. stýrt með aflagjaldi sem lagt verði á landaðan afla.
8. Stefnt verði að því að allur fiskur verði seldur á markaði.
Jafnframt er því eindregið beint til stjórnvalda að þau hlutist til um að þar til ný stefna taki gildi ráðstafi fjármálastofnanir á vegum ríkisins ekki aflaheimildum án þess setja skýra fyrirvara um endurskoðun slíkra samninga til samræmis við þá stefnu sem að framan er lýst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2009 | 22:47
Myndir frá úrslitum prófkjörs
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2009 | 16:40
Arabísk matargerð
Fimmtudaginn 12. mars fór ég ásamt fleira góðu fólki og lærði að elda arabískan mat í Rauða krossi Íslands Akranesdeild. Kennarinn var Wafaa frá Palestínu.
Hér eru uppskriftirnar:
Hummus
1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
3 msk. Thainismjör
1 hvítlauksrif
Salt á hnífsoddi
Allt sett í matvinnsluvél og hrært vel saman. Að lokum er hummusnum smurt á disk, smá ólífuolíu skvett yfir og ólífur settar út í til skrauts. Borið fram með góðu brauði.
Arabísk kartöflumús
½ kíló af kartöflum soðnar í potti. Að því loknu eru kartöflurnar settar í kalt vatn og flysjaðar. Síðan settar í matvinnsluvél. 1 búnti af myntu bætt út í ásamt 4 rifjum af hvítlauk. Mixað í matvinnsluvél í u.þ.b. 5 mínútur.Sett á disk, smá ólfíuolíu slett yfir til skreytingar og borið fram.
Falafel
500 gr. Kjúklingabaunir (lagðar í bleyti í 24 stundir).
1 laukur
4 hvítlauksrif
1 matskeið cummin
1 matskeið Arabískar nætur
2 búnt steinselja
Salt eftir smekk
2 matskeiðar matarsódi
Kjúklingabaunirnar eru hakkaðar x2 í hakkavél. Allt hráefnið látið fara í gegnum hakkavélina. Kryddi og matarsóda bætt út í og hnoðað saman þar til orðið mátulega fast í sér. Sett í plastpoka og látið bíða í 15 mínútur. Athugið að ef ætlunin er að geyma deigið og steikja seinna er matarsódinn ekki settur út í fyrr en rétt fyrir steikingu.Þegar deigið er tilbúið eru búnir til úr því litlir klattar og þeir djúpsteiktir á pönnu. Borði fram með góðu brauði og sósu eftir smekk (t.d. Gunnars Sinneps- eða Mangó- og karrýsósu).
Kebab
500 gr. Kjöthakk (kinda/nauta/svína)
1 laukur, saxaður smátt
¾ matskeið karrý
1 teskeið hvítlaukspipar
1 teskeið Arabískar nætur
1 búnt steinselja
Salt eftir smekk
1 bolli hveiti
Vatn
Hvítlauks/myntusósa
1 bolli AB mjólk
1 - 2 hvítlauksrif
1 - 2 matskeiðar mynta
Öllu hnoðað saman í skál þar til deigið er orðið mátulega þétt. Sett í plastpoka og látið bíða í 40 - 60 mínútur. Djúpsteikt á pönnu. Borið fram með Hvítlauks/myntusósunni og góðu brauði.
Addish - linsubaunasúpa sem mikið er borðuð í Ramadan mánuði
500 gr. Rauðar linsubaunir
1 pakki núðlusúpa
1 laukur
Salt
Skvetta af ólífuolíu
Skvetta af sítrónusafa
Linsubaunirnar eru settar í pott og vatni bætt út í - athugið að vatnið á að fljóta rétt fingurbreidd yfir baunirnar. Suðan látin koma upp við vægan hita. Hafið pottinn lokaðan og láti malla þar til vatnið hefur gufað upp. Þá er bætt út í u.þ.b tveimur bollum af sjóðandi vatni. Salti, núðlum (a.t.h að nota ekki kryddið sem fylgir með í pakkanum), olífuolíu og sítrónusafa bætt út í. Laukurinn saxaður smátt og brúnaður á pönnu. Síðan bætt út í súpuna. Látið malla í 15 mínútur. Borið fram með góðu brauði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2009 | 22:27
Takk fyrir stuðninginn – nú sækjum við fram
Vegna anna á Alþingi og fundahalda gaf ég mér aldrei tíma til að þakka félögum í Samfylkingunni í NV-kjördæmi þann mikla stuðning sem þeir veittu mér í prófkjörinu fyrir viku. Ég er himinlifandi að hljóta traust meira en 70% þeirra sem tóku þátt, en þátttakan var betri en víða annars staðar á landinu, en það gleymist að prófkjörið var aðeins opið flokksbundnu Samfylkingarfólki. Alls 771 veittu mér sitt atkvæði og þar af 601 í fyrsta sætið, en alls greiddu 854 atkvæði í prófkjörinu. Ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig um leið og ég hvet alla til að standa saman í komandi átökum. Ég þakka meðframbjóðendum mínum heiðarlega baráttu. Nú þarf allar vinnufúsar hendur til verka ef við eigum að ná góðum árangri 25. apríl n.k.
Ég vil einnig þakka kjördæmisráði, kjörnefnd og trúnaðarmönnum fyrir óeigingjarnt starf við prófkjörið sem og kosningastjóranum okkar, Þórhildi Ólafsdóttur.
Sífellt fleiri niðurstöður fást úr prófkjörum og uppstillingum á lista í kjördæmum landsins.
Tekist er á um endurnýjun og þá hugmynd að nýta áfram reynslu þingmanna. Svo virðist sem bland af hvoru tveggja sé það sem flokksfélagar Samfylkingarinnar vilja og í NV-kjördæmi virtist jafnframt ríkur vilji fyrir því að tryggja konum framgang, bæði með setningu reglna um paralista en einnig með því að kjósa konur í efstu sæti.
Ég ákvað að bjóða mig fram, þar sem mér fannst ég rétt að byrja mín störf sem þingmaður. Ég gaf kost á mér fyrir tveimur árum og ætlaði að gefa mér góðan tíma til að komast inn í mál og starfsaðferðir þingsins. Ég fékk skemmtileg verkefni sem formaður félags- og tryggingamálanefndar, og sem fulltrúi í menntamála- og fjárlaganefnd og mörg verkefni náðu fram að ganga á fyrsta árinu, einkum í málefnum barna- og unglinga, skólalöggjöf og í fjárveitingum til fjölmargra góðra mála í kjördæminu. En allir þekkja atburðarásina, hrun bankanna, fjármálakerfisins og eftirlitsstofnana og um leið hrun hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Í kjölfarið var ákveðin upplausn í samfélaginu sem leiddi til ríkisstjórnarslita og myndun minnihlutastjórnar um leið og ákveðið var að boða til Alþingiskosninga til að gefa kost á nýju fólki eða til að sækja nýtt umboð til kjósenda. Við þessar aðstæður stýri ég þinginu sem þingforseti og leita sátta um framgang mála í þessu nýju umhverfi.
Nú er að sjá hvort þjóðin okkar velur að gefa þeim valdaflokkum frí frá stjórn landsins, sem komu okkur fyrst og fremst í þessi vandræði með hugmyndafræði sinni, gjafakvóta, einkavæðingu, nánast gjöf bankanna til vildarvina, rangri peningastjórn og með hugmyndafræði óhefts frelsis fjármagnseigenda og forgangsröðun í þágu hinnar ríku. Inn í þetta umhverfi, sem var í boði framsóknarflokksins og þó einkum sjálfstæðisflokksins, kom Samfylkingin, settist í ríkisstjórn með sjálfstæðisflokknum og uggði ekki að sér, treysti um of á stofanir eins og Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, sem var eflt, og náði ekki að bjarga efnahagslífinu og koma í veg fyrir hrun bankanna. Á því berum við ábyrgð og getum aðeins beðist afsökunar á værð okkar og aðgerðarleysi. Þegar bankarnir höfðu hrunið brást Samfylkingin hratt við en nú vitum við af biturri reynslu að það þarf meiri drift og dugnað en Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegar út í erfiðleikana var komið. Ákvörðunarfælni þessa stóra flokks þvældist fyrir, eða kannski voru það hagsmunatengslin sem seinkaði öllum ákvörðunartökum.
Sífellt kemur betur og betur í ljós hvernig persónulegir, fjárhagslegir og flokkslegir hagsmunir ákveðinna flokka fléttuðust saman í órofa heild spillingar. Til að fletta ofan af þessu þarf að gefa þessum gömlu valdaflokkum frí eftir kosningar, og til að ná því markmiði þarf að efla Samfylkinguna.
Ég fer óhræddur til kosninga með grunngildi Samfylkingarinnar að leiðarljósi um lýðræði, jafnrétti og réttlæti. Nýtt og betra Ísland verður að byggjast á þessum gildum, gömlu góðu gildum jafnaðarstefnunnar, þar sem markaðurinn er auðmjúkur þjónn þjóðarinnar en ekki öfugt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2009 | 23:01
Kveðja til Karls V. Matthíassonar
Mér barst tilkynning frá Karli um úrsögn hans úr Samfylkingunni og innritun í Frjálslynda flokkinn með hóp pósti en fyrst með tilkynningu á Alþingi. Þessi ákvörðun hans kom mér á óvart, enda vann hann hetjulega annað sæti í prófkjöri fyrir tveimur árum og máttu þá aðrir víkja fyrir honum og létu þar við sitja en nú var hann fórnardýr prófkjörs og unir því ekki. Það kom mér á óvart. Prófkjörið snérist ekki gegn Karli, en með öðrum, en fyrir mér er mikill munur á þessu tvennu. Ég hef hvergi beitt mér gegn Karli og raunar ekki hitt neinn sem gerði það. Almennt er vel talað um hann, góður vinur og félagi, en greinilega telja félagar í Samfylkingunni, sem tóku þátt í prófkjörinu, aðra betri til að bera fram stefnu flokksins í NV-kjördæmi.
Karl velur að tilgreina sem ástæðu úrsagnar úr Samfylkingunni að málefnum sem hann standi fyrir hafi þar með verið hafnað.
Hann skrifar eftirfarandi í fréttatilkynningu 13. mars s.l.:
Ég hef ákveðið að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn.
Ákvörðun þessi helgast af því að skoðanir mínar og hugsjónir um sjávarútvegsmál á Íslandi eiga ríkan hljómgrunn í Frjálslynda flokknum. ...
... Ein meginástæða þess að ég hóf opinbera þátttöku í stjórnmálum er löngun mín til þess að sjá fiskveiðistjórnunarkerfinu breytt því það er að mínu mínu mati ranglátti og felur í sér mikla mismunun. Jafnframt er ég þeirrar skoðunar að fyrirkomulag þessa kerfis eigi stóran þátt í þeim vanda sem þjóðin glímir nú við. Eitt mikilvægasta verkefni í endurreisn landsins er að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann veg að arður þessarar auðlindar komi þjóðinni betur til góða en nú er og skapi um leið fleiri atvinnutækifæri.
Það er leitt að Karl upplifi að prófkjörið hafi snúist um afstöðu hans til sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar en hann lætur um leið í veðri vaka að enginn annar í Samfylkingunni hafi borið stefnuna fram né geti gert það. Hið rétta er að sjávarútvegsmálin hafa verið í höndum Karls, ég hef t.d. vikið í umræðunni til að gefa honum meira svigrúm og athygli og tekið undir með með honum í flestum atriðum. Karl leiddi málaflokkinn sem varaformaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og um leið sem formaður málefnahóps Samfylkingarinnar um sömu mál. Ég vissi ekki annað en að sátt væri um sjávarútvegsstefnuna sem Karl hefur m.a. stutt. Samfylkingin ein fárra flokka hefur haft heilsteypta stefnu í málaflokknum, m.a. byggða á tillögum okkar ágæta félaga Jóhanns Ársælssonar. Ég veit ekki til að stefnu flokksins hafi verið breytt.
Tillögur eða tillöguleysi Samfylkingarinnar í þessum málaflokki eru fyrst og fremst á ábyrgð Karls og varla sanngjarnt að kenna öðrum um, þar sem hann átti að vera talsmaður okkar. Hagsmunir íbúa Norðvesturkjördæmis, bæði til sjós og lands, munu áfram verða leiðarljós Samfylkingarinnar í kjördæminu og af meiri krafti en nokkru sinni og þar með baráttan fyrir réttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi.
Hver og einn á val í lífi sínu og velur það sem samviskan bíður og það sem hann telur best fyrir sig, fjölskyldu sína og hugsjónir sínar. Karl V. Matthíasson hefur valið og ég virði það og óska honum alls hins besta á nýjum vettvangi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2009 | 21:46
Ég sækist eftir fyrsta sætinu
Byggjum saman nýtt og betra samfélag
Almannahagur - lýðræði - jafnrétti og réttlæti
Erfiðir tímar endurreisn er nauðsynleg strax.
Það eru aðeins tvö ár síðan ég bauð mig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar og var í framhaldinu kjörinn 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur mynduðu síðan ríkisstjórn um velferðarmál og efnahagsmál.
Ég tók að mér formennsku í félags- og tryggingamálanefnd, auk þess að starfa í menntamála- og fjárlaganefnd auk almennra þingstarfa. Þessi tími hefur verið fljótur að líða.
Umtalsverður árangur náðist á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Í félags- og tryggingamálanefnd var gengið frá fjölda mála varðandi málefni barna og innflytjenda sem og í barnaverndarmálum. Þá náðust fram umtalsverðar breytingar á kjörum öryrkja og eldri borgara, þó margt verði að bæta í þeim málaflokkum. Ný jafnréttislög voru afgreidd og sett lög um frístundabyggð svo eitthvað sé nefnt. Ný lög um öll skólastigin voru afgreidd og fleira var í farvatninu.
Áherslur Samfylkingarinnar voru sjáanlegar í öllum velferðar- og menntamálum, þó oft yrði að gera málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna. Á sama tíma fór hins vegar efnahagsástandið versnandi, krónan veiktist, vextir hækkuðu og verðbólgan fór á fulla ferð. Bankarnir réðu lítið við ofvöxt sinn og lánsfjárþurrð leiddi til stofnunar erlendra innlánsreikninga. Veikur gjaldmiðill og veikar varnir í regluverki stjórnmálanna og stofnana s.s. fjármálaeftirlits og Seðlabanka, auk græðgi eigenda bankanna ásamt ótrúlegum innri viðskiptum settu svo bankana endanlega á hausinn.
Ég verð að bera ábyrgð á því og biðjast velvirðingar á að hafa ekki sinnt þessum málum, en fyrst og fremst einbeitt mér að velferðar- , mennta- og byggðamálum. Mig langar að gefa kost á mér til að bæta um betur og taka þátt í endurreisn íslensks samfélags, þar sem ný gildi samvinnu og jafnaðarmennsku verða leiðarljósin. Samfylkingin axlaði ábyrgð með því að gefa þjóðinni kost á að kjósa og hreinsa til í Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum, viðskiptaráðherrann hætti og síðan var skipt um forystu þar sem Jóhanna Sigurðardóttir varð okkar forsætisráðherraefni.
Jöfnum kjörin verjum börn, fjölskyldur og heimili
Í þeim hremmingum sem við erum í er mikilvægast að verja heimilin, börnin og fjölskyldurnar frá langvarandi fjárhagserfiðleikum og fátækt. Forgangsraða þarf þannig að byrðunum verði jafnað á milli fólks, svo að allir leggi sitt af mörkum til að endurreisa samfélagið. Gæta þarf þess að ekki halli áfram á byggðir landsins í samkeppninni við höfuðborgina í þessu fári. Hjálpa þarf fyrirtækjum sömuleiðis út úr þeirra erfiðleikum og gera allt til að sporna við þeirri bölvun sem atvinnuleysið getur orðið. Sitja þarf um hvert tækifæri til að liðka til svo hjólin fari að snúast að nýju. Gæta þarf þess að fjármála- og atvinnulífið verði endurreist með bættum leikreglum og siðferði.
Þjóðin þarf að endurmeta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu og leita leiða til öðlast stöðugleika, afnema verðtryggingu og lækka vexti, en ég tel þetta helst verða gert með aðildarumsókn um ESB og upptöku Evru. Skilgreina þarf samningsmarkmiðin, sækja um og ef viðunandi samningar nást að leggja þá fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Gæta þarf að auðlindum okkar s.s. sjávarauðlindinni og nýtingu hennar og sömuleiðis mikilvægi íslensks landbúnaðar í þessari umræðu.
Uppbyggingarstarfið er hafið með nýrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og stefnan tekin upp á við. Fjöldi verkefna bíður úrlausna, en hægt og bítandi miðar í rétta átt. Engin ein leið er fær, vinna þarf að málum með fjölbreyttum úrræðum. Greiðsluaðlögun, nýting séreignasparnaðar, frysting lána, breyting á gjaldþrotalögum og full endurgreiðsla vsk við framkvæmdir eru meðal úrræða. Viðamiklar tillögur ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til að skapa atvinnu voru kynntar í dag en meira þarf til. Brýnust verkefnin sem enn á eftir að leysa er að ná gengi á íslensku krónuna og afgreiða myntkörfulánin, en ekki síður að ákveða hvernig farið verður með verðtryggðu lánin sem hafa rokið upp með alltof hárri verðbólgu.Það eru krefjandi verkefni framundan sem ég er tilbúinn að takast á við, ef ég fæ umboð ykkar, ágætu kjósendur, í prófkjörinu sem nú stendur og í framhaldi í kosningunum í vor.
Takið þátt hafið áhrif.
Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingarinnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Skessuhorn fréttir af Vesturlandi
- Bæjarins Bestu fréttir af vestan
- Húnahornið fréttir úr Húnavatnssýslu