Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Félagshyggjuverðlaun Ungra Jafnaðarmanna

 

Félagshyggjuverðlaun Ungra Jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, voru veitt í föstudaginn 18.04. Í ár voru það Akranesdeild Rauðakrossins og Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta sem heiðruð voru fyrir óeigingjarnt starf í þágu þeirra sem minna mega sín á erfiðum tímum.

 

-Akranesdeild Rauða krossins.

Fyrir störf í þágu flóttafólks og innflytjenda.  Í september 2008 komu 29 flóttamenn, 8 konur og 21 barn, til Íslands frá flóttamannabúðunum Al Waleed í Írak. Rauði Kross Akraness tók á móti fólkinu og bjó í haginn fyrir það í nýjum heimkynnum.  Auk þess hafa samtökin staðið að ýmiss konar fræðslu og starfi fyrir innflytjendur.  Þannig hefur Akranesdeild Rauða krossins gert hópum fólks kleift að hefja nýtt líf á öruggum stað. Auk þess hefur starf hennar varpað ljósi á þær erfiðu aðstæður sem fólk um víða veröld býr við og stuðlað að því að íslenskt samfélag verði fjölbreytilegra og auðugra.

 

-Guðrún Jónsdóttir

Fyrir störf hjá Stígamótum.  Guðrún hefur um árabil barist gegn kynferðisofbeldi og hlúð að þeim sem fyrir því verða.  Hún hefur verið í fararbroddi þeirra sem vekja athygli á og sporna gegn slíku ofbeldi og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Íslands. Þannig hefur Guðrún hjálpað fjölda fólks og vakið athygli á ofbeldi og grófu misrétti sem lengi fór hljótt.

 

Það er mikilvægur þáttur í starfsemi Ungra Jafnaðarmanna vera einskonar samfélagsleg broddfluga sem bendir óþreytandi á það sem betur má fara. Hitt er þó einnig mikilvægt að sjá það sem vel er gert, hrósa því og hvetja þá aðila sem að slíkum verkum standa til frekari dáða. Ungir Jafnaðarmenn óska Akranesdeild Rauðakrossins og Guðrúnu Jónsdóttir til hamingju með verðlaunin og biðja þeim gæfu á komandi tímum.

 

Ég sendi jafnframt mínar bestu hamingjuóskir og þakklæti til þessa ágæta fólks fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannúðar og jafnréttis.

myndir í myndaalbúmi merktar UJ


Heimsókn til Sauðárkróks

IMG_1111-1Um 30 manns komu á kosningamiðstöðina á Sauðárkróki þar sem ég og fleiri sáum um að grilla, ljúf tónlist var leikin og allir tóku vel til matar síns. Ómar Ragnarsson fór með gamanmál eins og honum einum er lagið og við sungum saman baráttulagið ,,Frelsi, jafnrétti og bræðralag:"  Ég fór síðan á kórtónleika á Blönduósi og ball á eftir, en hafði fyrr um daginn verið í rósadreifingu í Borgarnesi og fjölskyldukaffi þar með Samfylkingarfólki.  Frábær dagur !


Vinna og velferð - Velferðarbrúin

 
Íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum efnahagshrun og stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að reisa við hag einstaklinga, fjölskyldna og heimila, endurreisa bankakerfið, atvinnulífið, tryggja næga atvinnu og lífsafkomu til lengri tíma.  Íslenska þjóðin þarf að byggja upp nýtt samfélag en spurningin er, hvernig samfélag viljum við byggja?  Viljum við samskonar þjóðfélag einkavinavæðingar og samtryggingar?  

Eða ætlum við  að endurskoða hlutina og tryggja meira réttlæti, jöfnuð, lýðræði og gagnsæi en verið hefur?  Ætlum við að útrýma því misrétti og þeim ójöfnuði sem var vaxandi í okkar þjóðfélagi á síðasta áratug? 

Þetta eru grundvallarspurningarnar sem Alþingis-kosningarnar snúast um nú í vor.

Val kjósenda er mikilvægt

Samfylkingin býður fram gildi jafnaðarstefnunnar, lýðræðislegt opið og frjálst samfélag, byggt á réttlæti og jafnrétti milli ólíkra hópa, kynja og byggðalaga. Sérstök áhersla er lögð á að efnahagur fólks eða búseta skipti þjóðinni ekki í hópa líkt og verið hefur.
Það skiptir máli og hefur aldrei verið mikilvægara en nú, hver leiðir komandi ríkisstjórn, hver leiðir kjördæmið okkar, hverjir stýra landinu að loknum kosningum.  Val kjósenda er mikilvægara nú en nokkru sinni. 

    Samfylkingin hefur með aðgerðum sínum og tillögum mótað heildstæða áætlun, sem kallast „Velferðarbrúin".  Markmiðið er að styrkja stöðu heimilanna í landinu á ábyrgan hátt, án gylliboða.  Áætlunin samanstendur af mörgum, en markvissum aðgerðum sem allar hafa það að markmiði að vísa skuldsettum heimilum leiðina yfir brúna, yfir erfiðleikana. Tryggja verður öruggt húsnæði og lágmarksafkomu fyrir einstaklinga og fjölskyldur þessa lands, ekki hvað síst barnafólks. Lögð er áhersla á greiðslubyrði verði aðlöguð að greiðslugetu heimilanna til að koma í veg fyrir gjaldþrot með tilheyrandi afleiðingum. 

 

Aðgerðir fyrir alla

Flest úrræðin miða við hjálp til sjálfshjálpar og snúa fyrst og fremst að þeim er þurfa á aðstoð að halda.  Þegar hefur Íbúðarlánasjóður og nú einnig bankar og lífeyrissjóðir,  boðið upp á fjölbreytt úrræði s.s. frystingu eða lengingu lána, frestun afborgana og ýmiss konar samninga og endurfjármögnun.  Þá hafa verið samþykkt lög er heimila fólki að taka út séreignasparnað, dráttarvextir verið lækkaðir og nauðungaruppboðum frestað. Aðal aðgerðirnar eru þó stórhækkun á endurgreiðslu vaxta- og verðbóta, sem skilar sér best til þeirra sem hafa lent verst í verðbólgu liðins árs, aðgerð sem nær beint til þeirra sem skuldsettir eru.  Önnur aðgerð var greiðslujöfnun, þar sem heimilt er að miða afborganir við launavísitölu að teknu tilliti til atvinnuleysis.  Í þriðja lagi má nefna greiðsluaðlögun, þar sem skuldir eru afskrifaðar og aðlagaðar greiðslugetu, en það úrræði hentar þeim skuldsettustu.  Loks er verið að ganga frá yfirfærslu á myntkörfulánum yfir í íslenska mynt, en sú aðgerð er vandasöm og viðkvæm.  Vonandi tekst hún vel. Samhliða þessu náðist sá merki áfangi að afnema ábyrgðarmanna-kerfið við lántöku. Öll þessi úrræði eru brúarstólpar í velferðarbrúnni og búa þannig til færa leið yfir erfiðleikana.  Þessari brúarsmíð er ætlað að tryggja að ALLIR komist yfir erfiðleikana og geti byggt upp að nýju góða örugga framtíð innan skamms tíma. 

 

Réttlætið vísar veginn

Það reynir á okkur öll í uppbyggingunni, það reynir á samhjálp og samvinnu, það reynir á sveitarfélög og ríki.  Forsenda þess að vel takist til er örugg stjórn og rétt grunngildi sem höfð eru að leiðarljósi við uppbygginguna.  Samfylkingin býður fram þessi gildi, traust fólk til forystu og bendir á fjölþættar leiðir til að ná markmiðunum. Endurreisn þjóðfélagsins verður því hraðari og traustari sem varlegar er farið í skuldsetningu þjóðarbúsins. Gæta þarf fyllsta aðhalds og hagkvæmni í rekstri ríkisins og forgangsraða þarf verkefnum í þágu fólksins.  Það er í höndum kjósenda hverjum þeir treysta best til að leiða þjóðina yfir erfiðleikana.  Við frambjóðendur Samfylkingarinnar bjóðum fram okkar þjónustu og vinnu, byggða á skýrri sýn á hvert skuli stefna.  Vinnan og velferðin verða í forgrunni, hagsmunir almennings og réttlætið munu vísa okkur veginn.


Um Hvalfjarðargöngin

Í ljósi þess að ég vil að gjaldið í Hvalfjarðargöngin verði afnfumið ætla ég að fara hér aðeins yfir sögu ganganna. Í umfjöllun um Hvalfjarðargangagjaldið hefur mikið verið rætt um aðdragandann að stofnun hlutafélagsins Spalar hf. og það að um einkaframkvæmd var að ræða með skuldbindingu til 20 ára. 

Gerð Hvalfjarðarganga átti sér langan aðdraganda. Fjölmargar nefndir höfðu unnið að hugmyndum um með hvaða hætti skyldi haga samgöngum fyrir Hvalfjörð. Á þeim tíma var Akraborgin starfandi og hafði verið í mörg ár, eitt skip af öðru, sem ríkið bar af verulegan kostnað. Segja má að fjárfestingin í ferjum á þeim tíma hafi verið greidd af ríkissjóði og fargjaldið nánast ekki staðið undir öðru en daglegum rekstri. 

Hugmyndir höfðu vaknað - fyrst og fremst frá starfsmönnum og áhugamönnum í Íslenska járnblendifélaginu - hvernig ætti að leysa þetta. Þeir höfðu hugmyndir um ferjusamgöngur frá Grundartanga þvert yfir fjörðinn en þegar á leið kom fram sú hugmynd að gera göng eða leggja vegstokk. Menn gerðu sér vel grein fyrir því að þetta yrði ekki mögulegt eins og fjárhagsástandið var þá, nema með sérstakri fjármögnun.

Þetta varð til þess að stofnað var félag 25. janúar 1991 og hlutafélagið Spölur stofnað á fundi á Akranesi. Ég var þá í bæjarstjórn og tók þátt í þeim fundi. Á fundinum undirrituðu þáv. fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, og þáv. samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, viljayfirlýsingu um að Spölur fengi tækifæri til að kanna og vinna að undirbúningi að gerð ganga undir Hvalfjörð.

Þeir sem standa að hlutafélaginu, og mikilvægt er að halda því til haga, eru nánast eingöngu opinberir aðilar. Fyrirtækið er stofnað sem „non-profit" fyrirtæki, það á ekki að hafa hagnað af verkinu þó að í samningnum sé að af hlutafénu, sem var ekki nema milli 70 og 80 milljónir í upphafi, sé greiddur 14% arður til hluthafa. Grundartangahöfn átti þarna hlut í byrjun ásamt Sementsverksmiðjunni á Akranesi en þetta voru frumkvæðisaðilar að verkinu. Hlutur Grundartangahafnar er nú kominn undir Faxaflóahafnir og við sölu á Sementsverksmiðjunni komst hlutur hennar undir ríkissjóð. Að auki áttu Íslenska járnblendifélagið, Hvalfjarðarsveit, Vegagerðin og Akranesbær hluti í þessu. Þannig er það enn í dag, ríkið og opinberir aðilar eiga nánast allt hlutafélag Spalar

Það skal tekið fram að þegar þessar hugmyndir komu fram var mikil andúð við verkefnið, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu. Menn sáu ofsjónum yfir kostnaðinum, sem mig minnir að hafi verið 4,7 milljarðar - mér reiknaðist til á þeim tíma að stofnkostnaður Hvalfjarðarganga væri u.þ.b. sá sami og bygging Ráðhússins í Tjörninni hér í Reykjavík. Hver aðilinn á fætur öðrum lagðist gegn framkvæmdinni, m.a.s. í nánasta nágrenni ganganna. Ég man t.d. að sveitarfélög á Vesturlandi lögðu inn 500 þús. kr. úr sameiginlegum sjóðum sínum og lá við að framkvæmdastjórinn yrði rekinn fyrir það framtak á þeim tíma.

Verkið fór í undirbúning, það kostaði mikla skriffinnsku, miklar tryggingar vegna þess að ríkið gekk ekki sérstaklega í ábyrgð fyrir framkvæmdinni gagnstætt því sem margir hafa haldið heldur sá hlutafélagið algjörlega um að vinna þau gögn. Það þurfti því mjög dýra fjármögnun og dýrar tryggingar á undirbúningsstigi og í framkvæmdinni allri til að tryggja að allt gengi eftir, menn höfðu efasemdir um leka í göngunum o.s.frv. Mannvirkið var síðan tekið í notkun 11. júlí 1998. Á þessu ári eru því liðin 11 ár frá því að göngin komust í gagnið og margir sjálfsagt búnir að gleyma hvernig samgöngur gengu fyrir sig áður.

 


Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband