Leita í fréttum mbl.is

Um Hvalfjarðargöngin

Í ljósi þess að ég vil að gjaldið í Hvalfjarðargöngin verði afnfumið ætla ég að fara hér aðeins yfir sögu ganganna. Í umfjöllun um Hvalfjarðargangagjaldið hefur mikið verið rætt um aðdragandann að stofnun hlutafélagsins Spalar hf. og það að um einkaframkvæmd var að ræða með skuldbindingu til 20 ára. 

Gerð Hvalfjarðarganga átti sér langan aðdraganda. Fjölmargar nefndir höfðu unnið að hugmyndum um með hvaða hætti skyldi haga samgöngum fyrir Hvalfjörð. Á þeim tíma var Akraborgin starfandi og hafði verið í mörg ár, eitt skip af öðru, sem ríkið bar af verulegan kostnað. Segja má að fjárfestingin í ferjum á þeim tíma hafi verið greidd af ríkissjóði og fargjaldið nánast ekki staðið undir öðru en daglegum rekstri. 

Hugmyndir höfðu vaknað - fyrst og fremst frá starfsmönnum og áhugamönnum í Íslenska járnblendifélaginu - hvernig ætti að leysa þetta. Þeir höfðu hugmyndir um ferjusamgöngur frá Grundartanga þvert yfir fjörðinn en þegar á leið kom fram sú hugmynd að gera göng eða leggja vegstokk. Menn gerðu sér vel grein fyrir því að þetta yrði ekki mögulegt eins og fjárhagsástandið var þá, nema með sérstakri fjármögnun.

Þetta varð til þess að stofnað var félag 25. janúar 1991 og hlutafélagið Spölur stofnað á fundi á Akranesi. Ég var þá í bæjarstjórn og tók þátt í þeim fundi. Á fundinum undirrituðu þáv. fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, og þáv. samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, viljayfirlýsingu um að Spölur fengi tækifæri til að kanna og vinna að undirbúningi að gerð ganga undir Hvalfjörð.

Þeir sem standa að hlutafélaginu, og mikilvægt er að halda því til haga, eru nánast eingöngu opinberir aðilar. Fyrirtækið er stofnað sem „non-profit" fyrirtæki, það á ekki að hafa hagnað af verkinu þó að í samningnum sé að af hlutafénu, sem var ekki nema milli 70 og 80 milljónir í upphafi, sé greiddur 14% arður til hluthafa. Grundartangahöfn átti þarna hlut í byrjun ásamt Sementsverksmiðjunni á Akranesi en þetta voru frumkvæðisaðilar að verkinu. Hlutur Grundartangahafnar er nú kominn undir Faxaflóahafnir og við sölu á Sementsverksmiðjunni komst hlutur hennar undir ríkissjóð. Að auki áttu Íslenska járnblendifélagið, Hvalfjarðarsveit, Vegagerðin og Akranesbær hluti í þessu. Þannig er það enn í dag, ríkið og opinberir aðilar eiga nánast allt hlutafélag Spalar

Það skal tekið fram að þegar þessar hugmyndir komu fram var mikil andúð við verkefnið, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu. Menn sáu ofsjónum yfir kostnaðinum, sem mig minnir að hafi verið 4,7 milljarðar - mér reiknaðist til á þeim tíma að stofnkostnaður Hvalfjarðarganga væri u.þ.b. sá sami og bygging Ráðhússins í Tjörninni hér í Reykjavík. Hver aðilinn á fætur öðrum lagðist gegn framkvæmdinni, m.a.s. í nánasta nágrenni ganganna. Ég man t.d. að sveitarfélög á Vesturlandi lögðu inn 500 þús. kr. úr sameiginlegum sjóðum sínum og lá við að framkvæmdastjórinn yrði rekinn fyrir það framtak á þeim tíma.

Verkið fór í undirbúning, það kostaði mikla skriffinnsku, miklar tryggingar vegna þess að ríkið gekk ekki sérstaklega í ábyrgð fyrir framkvæmdinni gagnstætt því sem margir hafa haldið heldur sá hlutafélagið algjörlega um að vinna þau gögn. Það þurfti því mjög dýra fjármögnun og dýrar tryggingar á undirbúningsstigi og í framkvæmdinni allri til að tryggja að allt gengi eftir, menn höfðu efasemdir um leka í göngunum o.s.frv. Mannvirkið var síðan tekið í notkun 11. júlí 1998. Á þessu ári eru því liðin 11 ár frá því að göngin komust í gagnið og margir sjálfsagt búnir að gleyma hvernig samgöngur gengu fyrir sig áður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gutti, ég sé nú enga ástæðu til að leggja ofuráherslu á að fella niður þetta gjald. Þegar ég flutti aftur á Skagann eftir 23 ára fjarveru fékk ég mér lykil í göngin og borga því eitthvað um 280 krónur fyrir ferðina. Eftir sem áður á ég kost á að fara eftir ágætis vegi fyrir Hvalfjörð en dettur það ekki í hug vegna hagkvæmninnar í að nota göngin. Eftir að hafa búið allan þennan tíma Austurlandi og síðast Norðurlandi og kynnst vegakerfinu þar heldur betur, finnst mér þetta svo hlægilegir smámunir miðað við þægindin að ekki er talandi um þetta gjald. Held að við ættum að leyfa því að vera þar til Spölur hefur greitt upp göngin og Vegagerðin tekur við. 

Haraldur Bjarnason, 14.4.2009 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband