Leita í fréttum mbl.is

Vinna og velferð - Velferðarbrúin

 
Íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum efnahagshrun og stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að reisa við hag einstaklinga, fjölskyldna og heimila, endurreisa bankakerfið, atvinnulífið, tryggja næga atvinnu og lífsafkomu til lengri tíma.  Íslenska þjóðin þarf að byggja upp nýtt samfélag en spurningin er, hvernig samfélag viljum við byggja?  Viljum við samskonar þjóðfélag einkavinavæðingar og samtryggingar?  

Eða ætlum við  að endurskoða hlutina og tryggja meira réttlæti, jöfnuð, lýðræði og gagnsæi en verið hefur?  Ætlum við að útrýma því misrétti og þeim ójöfnuði sem var vaxandi í okkar þjóðfélagi á síðasta áratug? 

Þetta eru grundvallarspurningarnar sem Alþingis-kosningarnar snúast um nú í vor.

Val kjósenda er mikilvægt

Samfylkingin býður fram gildi jafnaðarstefnunnar, lýðræðislegt opið og frjálst samfélag, byggt á réttlæti og jafnrétti milli ólíkra hópa, kynja og byggðalaga. Sérstök áhersla er lögð á að efnahagur fólks eða búseta skipti þjóðinni ekki í hópa líkt og verið hefur.
Það skiptir máli og hefur aldrei verið mikilvægara en nú, hver leiðir komandi ríkisstjórn, hver leiðir kjördæmið okkar, hverjir stýra landinu að loknum kosningum.  Val kjósenda er mikilvægara nú en nokkru sinni. 

    Samfylkingin hefur með aðgerðum sínum og tillögum mótað heildstæða áætlun, sem kallast „Velferðarbrúin".  Markmiðið er að styrkja stöðu heimilanna í landinu á ábyrgan hátt, án gylliboða.  Áætlunin samanstendur af mörgum, en markvissum aðgerðum sem allar hafa það að markmiði að vísa skuldsettum heimilum leiðina yfir brúna, yfir erfiðleikana. Tryggja verður öruggt húsnæði og lágmarksafkomu fyrir einstaklinga og fjölskyldur þessa lands, ekki hvað síst barnafólks. Lögð er áhersla á greiðslubyrði verði aðlöguð að greiðslugetu heimilanna til að koma í veg fyrir gjaldþrot með tilheyrandi afleiðingum. 

 

Aðgerðir fyrir alla

Flest úrræðin miða við hjálp til sjálfshjálpar og snúa fyrst og fremst að þeim er þurfa á aðstoð að halda.  Þegar hefur Íbúðarlánasjóður og nú einnig bankar og lífeyrissjóðir,  boðið upp á fjölbreytt úrræði s.s. frystingu eða lengingu lána, frestun afborgana og ýmiss konar samninga og endurfjármögnun.  Þá hafa verið samþykkt lög er heimila fólki að taka út séreignasparnað, dráttarvextir verið lækkaðir og nauðungaruppboðum frestað. Aðal aðgerðirnar eru þó stórhækkun á endurgreiðslu vaxta- og verðbóta, sem skilar sér best til þeirra sem hafa lent verst í verðbólgu liðins árs, aðgerð sem nær beint til þeirra sem skuldsettir eru.  Önnur aðgerð var greiðslujöfnun, þar sem heimilt er að miða afborganir við launavísitölu að teknu tilliti til atvinnuleysis.  Í þriðja lagi má nefna greiðsluaðlögun, þar sem skuldir eru afskrifaðar og aðlagaðar greiðslugetu, en það úrræði hentar þeim skuldsettustu.  Loks er verið að ganga frá yfirfærslu á myntkörfulánum yfir í íslenska mynt, en sú aðgerð er vandasöm og viðkvæm.  Vonandi tekst hún vel. Samhliða þessu náðist sá merki áfangi að afnema ábyrgðarmanna-kerfið við lántöku. Öll þessi úrræði eru brúarstólpar í velferðarbrúnni og búa þannig til færa leið yfir erfiðleikana.  Þessari brúarsmíð er ætlað að tryggja að ALLIR komist yfir erfiðleikana og geti byggt upp að nýju góða örugga framtíð innan skamms tíma. 

 

Réttlætið vísar veginn

Það reynir á okkur öll í uppbyggingunni, það reynir á samhjálp og samvinnu, það reynir á sveitarfélög og ríki.  Forsenda þess að vel takist til er örugg stjórn og rétt grunngildi sem höfð eru að leiðarljósi við uppbygginguna.  Samfylkingin býður fram þessi gildi, traust fólk til forystu og bendir á fjölþættar leiðir til að ná markmiðunum. Endurreisn þjóðfélagsins verður því hraðari og traustari sem varlegar er farið í skuldsetningu þjóðarbúsins. Gæta þarf fyllsta aðhalds og hagkvæmni í rekstri ríkisins og forgangsraða þarf verkefnum í þágu fólksins.  Það er í höndum kjósenda hverjum þeir treysta best til að leiða þjóðina yfir erfiðleikana.  Við frambjóðendur Samfylkingarinnar bjóðum fram okkar þjónustu og vinnu, byggða á skýrri sýn á hvert skuli stefna.  Vinnan og velferðin verða í forgrunni, hagsmunir almennings og réttlætið munu vísa okkur veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband