6.3.2009 | 21:46
Ég sækist eftir fyrsta sætinu
Byggjum saman nýtt og betra samfélag
Almannahagur - lýðræði - jafnrétti og réttlæti
Erfiðir tímar endurreisn er nauðsynleg strax.
Það eru aðeins tvö ár síðan ég bauð mig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar og var í framhaldinu kjörinn 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur mynduðu síðan ríkisstjórn um velferðarmál og efnahagsmál.
Ég tók að mér formennsku í félags- og tryggingamálanefnd, auk þess að starfa í menntamála- og fjárlaganefnd auk almennra þingstarfa. Þessi tími hefur verið fljótur að líða.
Umtalsverður árangur náðist á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Í félags- og tryggingamálanefnd var gengið frá fjölda mála varðandi málefni barna og innflytjenda sem og í barnaverndarmálum. Þá náðust fram umtalsverðar breytingar á kjörum öryrkja og eldri borgara, þó margt verði að bæta í þeim málaflokkum. Ný jafnréttislög voru afgreidd og sett lög um frístundabyggð svo eitthvað sé nefnt. Ný lög um öll skólastigin voru afgreidd og fleira var í farvatninu.
Áherslur Samfylkingarinnar voru sjáanlegar í öllum velferðar- og menntamálum, þó oft yrði að gera málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna. Á sama tíma fór hins vegar efnahagsástandið versnandi, krónan veiktist, vextir hækkuðu og verðbólgan fór á fulla ferð. Bankarnir réðu lítið við ofvöxt sinn og lánsfjárþurrð leiddi til stofnunar erlendra innlánsreikninga. Veikur gjaldmiðill og veikar varnir í regluverki stjórnmálanna og stofnana s.s. fjármálaeftirlits og Seðlabanka, auk græðgi eigenda bankanna ásamt ótrúlegum innri viðskiptum settu svo bankana endanlega á hausinn.
Ég verð að bera ábyrgð á því og biðjast velvirðingar á að hafa ekki sinnt þessum málum, en fyrst og fremst einbeitt mér að velferðar- , mennta- og byggðamálum. Mig langar að gefa kost á mér til að bæta um betur og taka þátt í endurreisn íslensks samfélags, þar sem ný gildi samvinnu og jafnaðarmennsku verða leiðarljósin. Samfylkingin axlaði ábyrgð með því að gefa þjóðinni kost á að kjósa og hreinsa til í Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum, viðskiptaráðherrann hætti og síðan var skipt um forystu þar sem Jóhanna Sigurðardóttir varð okkar forsætisráðherraefni.
Jöfnum kjörin verjum börn, fjölskyldur og heimili
Í þeim hremmingum sem við erum í er mikilvægast að verja heimilin, börnin og fjölskyldurnar frá langvarandi fjárhagserfiðleikum og fátækt. Forgangsraða þarf þannig að byrðunum verði jafnað á milli fólks, svo að allir leggi sitt af mörkum til að endurreisa samfélagið. Gæta þarf þess að ekki halli áfram á byggðir landsins í samkeppninni við höfuðborgina í þessu fári. Hjálpa þarf fyrirtækjum sömuleiðis út úr þeirra erfiðleikum og gera allt til að sporna við þeirri bölvun sem atvinnuleysið getur orðið. Sitja þarf um hvert tækifæri til að liðka til svo hjólin fari að snúast að nýju. Gæta þarf þess að fjármála- og atvinnulífið verði endurreist með bættum leikreglum og siðferði.
Þjóðin þarf að endurmeta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu og leita leiða til öðlast stöðugleika, afnema verðtryggingu og lækka vexti, en ég tel þetta helst verða gert með aðildarumsókn um ESB og upptöku Evru. Skilgreina þarf samningsmarkmiðin, sækja um og ef viðunandi samningar nást að leggja þá fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Gæta þarf að auðlindum okkar s.s. sjávarauðlindinni og nýtingu hennar og sömuleiðis mikilvægi íslensks landbúnaðar í þessari umræðu.
Uppbyggingarstarfið er hafið með nýrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og stefnan tekin upp á við. Fjöldi verkefna bíður úrlausna, en hægt og bítandi miðar í rétta átt. Engin ein leið er fær, vinna þarf að málum með fjölbreyttum úrræðum. Greiðsluaðlögun, nýting séreignasparnaðar, frysting lána, breyting á gjaldþrotalögum og full endurgreiðsla vsk við framkvæmdir eru meðal úrræða. Viðamiklar tillögur ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til að skapa atvinnu voru kynntar í dag en meira þarf til. Brýnust verkefnin sem enn á eftir að leysa er að ná gengi á íslensku krónuna og afgreiða myntkörfulánin, en ekki síður að ákveða hvernig farið verður með verðtryggðu lánin sem hafa rokið upp með alltof hárri verðbólgu.Það eru krefjandi verkefni framundan sem ég er tilbúinn að takast á við, ef ég fæ umboð ykkar, ágætu kjósendur, í prófkjörinu sem nú stendur og í framhaldi í kosningunum í vor.
Takið þátt hafið áhrif.
Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingarinnar
Eldri færslur
Bloggvinir
Tenglar
Mínir tenglar
- Skessuhorn fréttir af Vesturlandi
- Bæjarins Bestu fréttir af vestan
- Húnahornið fréttir úr Húnavatnssýslu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.