Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Kjósum öflugan leiðtoga

Smellið á tengilinn hér að neðan en það er grein á vef Skessuhorns eftir Sigurjón Jónsson

Kjósum öflugan leiðtoga


Erindi flutt við úthlutun Menningarráðs Vesturlands 27. febrúar 2009

Ágætu styrkþegar og góðir gestir!

Til hamingju með daginn. 

Miklir umbrotatímar hafa verið í íslensku samfélagi og raunar í hinum vestræna heimi s.l. mánuði.  Við höfum nú gengið í gegnum nokkurra ára tímabil sem var kallað góðæri, en hefur nú fengið heitið gróðæri, mikið ofþenslu og draumóra tímabil, þar sem hlutabréf og markaðspappírar mótuðu hugarfar, glýja peninga og allsnægta sumra þjóðfélagshópa mótaði viðskiptalíf og atvinnulíf, hugarfar sem hafði áhrif á stóran hluta samfélagsins, einkum höfuðborgarlífið og menningarlífið þar.

Þessu gleðitímabili tálsýnar og sýndarveruleika lauk skyndilega s.l. haust, með hruni íslenskra banka og fjármálalífsins alls og í kjölfarið blasti við nýr raunveruleiki með verulegu fjárhagstjóni fjölmargra fjölskyldna og einstaklinga og fyrirtækja, fjórðungstekjutapi ríkisins, lokunum í fyrirtækjum og atvinnuleysi af stærðargráðu sem varla hefur þekkst hér síðustu áratugi. Ríki og sveitarfélög, jafnt og einstaklingar og fyrirtæki, hafa orðið að forgangsraða að nýju sínum útgjaldaliðum og ekki laust við að menningarlífið hafi orðið fyrir barðinu á slíkri endurskoðun.

Fyrirtækin halda að sér höndum, styrkja síður alls kyns félags- og menningarstarf og því er mikilvægara en nokkru sinni að ríki og sveitarfélög dragi ekki um of saman í sínum styrkjum.

Erfiðleikar eins og atvinnuleysi gera enn mikilvægara en nokkru sinni að efla alls kyns menningarstarf, bæði starf  þeirra sem byggja afkomu sínu á slíku starfi en ekki síður hinna sem taka virkan þátt í fjölbreyttu menningarstarfi í sínum frítíma.  Það getur skipt sköpum fyrir slíkt starf að hið opinbera veiti grunnstyrki, sem hvetja fólk til dáða, til að ráðast í ný verkefni, þróa eldri verkefni eða hrinda í framkvæmd alls kyns hugmyndum sem fólk hefur alið í brjósti sér.  Virkni einstaklingsins, í stað þess að leggjast í þunglyndi í fjötrum atvinnuleysis, getur skipt sköpum varðandi líðan og heilsu viðkomandi.  Þennan þátt má því ekki draga um of saman.  

Samningar um menningarmál, sem ríki og sveitarfélög gerðu, voru mikið framfaraspor á sínum tíma, - lyftistöng fyrir menningarlífið t.d. hér á Vesturlandi.  Fyrsti samningurinn var gerður árið 2005 og var til 3ja ára og rann út í lok árs 2008.  Nú hefur hann verið endurnýjaður í eitt ár, en ætlunin var að halda ráðstefnu og meta árangur og áhrif menningarsamninganna  á hinum ýmsu landsvæðum áður en þeir væru endurnýjaðir til lengri tíma.  Slík ráðstefna og úttekt býður nú væntanlegrar nýrrar ríkisstjórnar. 

Ég hef fylgst með framkvæmd þessara samninga frá byrjun,  sem skólastjóri og síðar sem þingmaður.  Ég hef fylgst með hvernig menningarráðin hafa með ólíkum hætti nálgast verkefnið og þróað sínar eigin reglur og viðmið, auk þess að taka frumkvæði að nýjum verkefnum eins og gert hefur verið hér á Vesturlandi.  Reglurnar kveða þó á um að ekki skuli veita stofnstyrki né styrkja lögbundinn rekstur safna, sem njóta framlaga af fjárlögum.

Ég hef fylgst með umræðunni og togstreitunni á milli lista- og menningarstarfsemi og menningartengdri ferðaþjónustu, umræðu um hvort veita eigi styrki til verkefna á vegum opinberra stofnana eða skóla o.s.frv.  Þannig verða allar úthlutanir menningarráðanna um allt land umræðuefni, en eftir sem áður dylst engum mikilvægi þessara styrkja.Þá hefur verið bitist á um hvort og þá hve mikið fjárlaganefnd eigi að veita til ákveðinna verkefna, hvort ekki eigi að beina öllu fjármagni í gegnum miðlæga sjóði; safnasjóð, listasjóð eða tónlistarsjóð og hvað þetta nú allt saman heitir, og jafnframt menningarráðin í stað þess að fjárlaganefnd veiti styrki beint. 

Sumir vilja gera greinarmun á stofnstyrkjum og fjárfestingarstyrkjum, sem fjárlaganefnd eigi þá að sjá um og styrkjum til atburða eða einstakra sýninga eða verkefna sem sjóðir og menningarráð sjá um.  Jafnvel hefur verið talað um að veita ekki styrki frá menningarráðum til verkefna sem fjárlaganefnd styrkir.

Ég tel aðalmálið vera að styrkir fáist, að nægt fjármagn fáist, en viðurkenni fúslega að skipuleggja má betur þessar úthlutanir í heild.  Tryggja að þær séu faglegar og reyna að gæta jafnræðis og hlutlægni og forðast með öllu pólitískar fjárveitingar eða vinagreiða. 

Óhætt er að fullyrða að fjárveitingar menningarráðsins hér á Vesturlandi hefur ýtt undir verkefni og atburði og verið hvatning fyrir marga á svæðinu.

Í gærkvöldi var ég enn einu sinni á frábærum tónleikum, þar sem grunnskóli tók frumkvæði í að þróa nýjung í tónlistarstarfi, sem tengdist skólum Akranesbæjar, þar sem leiddir voru saman atvinnutónlistarmenn, eldri popparar og krakkar sem hafa áhuga á tónlist, hljóðfæraleik eða söng.  Þetta verkefni er afsprengi Evrópuverkefnis, þar sem nokkur lönd sömdu í sameiningu söngleik og fluttu bæði á Akranesi, en einnig í samstarfi við önnur lönd, verkefni sem spannaði 3 ár.  Í tengslum við þetta Evrópuverkefni var flutt inn, staðfærð og þróuð sænsk hugmynd um samstarf eldri og yngri tónlistarmanna, einkum ungra popplistarmanna. 

Að fylgjast með tugum ungmenna, eldri poppara og frábærra atvinnumanna í tónlist, kennara og nemenda úr grunnskólum, framhaldsskóla og tónlistarskóla flytja 22 lög á 2 klst löngum tónleikum er ógleymanlegt, verkefni sem hefði ekki orðið til nema með styrkjum menningarráðsins.  Er það verkefni menningarráðs að styrkja starfsmenn skólanna til að vera með slík hliðarverkefni, viðbótarverkefni, tilboð til krakka um nám og kennslu utan hefðbundins kennslutíma?  Væri ekki nær að beina slíku fjármagni til þeirra sem eru að berjast við að búa til atvinnu fyrir listamenn á svæðinu, byggja upp menningartengda ferðaþjónustu o.s.frv.

Fyrir mér er það ekki nokkur vafi að menningarráð Vesturlands hefur valið rétt varðandi þennan lið á liðnum árum.  Hér er verið að styrkja starfandi listamenn í bland við sjálfboðavinnu í þágu listauppeldis unga fólksins, barnanna okkar um leið og boðið er upp á atburð með nokkrum hundruðum og stundum þúsundum (eins og á frumsömdum söngleikjum) áhorfenda.

Menningarráð Vesturlands hefur valið að setja sér úthlutunarreglur eða viðmið fyrir hverja úthlutun og birtust forgangsatriðin í 6 atriða lista að þessu sinni og bera úthlutanir þess merki hver áherslan var.Hér á Vesturlandi er öflugt menningarlíf, spennandi verkefni af ýmsum gerðum, óteljandi hugmyndir sem birtast í þeim rúmlega 150 umsóknum með yfir 170 verkefnum.Hluti þessar aðila fær styrki hér í dag og vil ég óska öllum þessum aðilum innilega til hamingju með styrkina.  Ég er þess fullviss að þetta er hvatning til enn frekari dáða og ég hlakka til að fá tækifæri til að sjá eða taka þátt í ýmsum af þeim tónleikum, leiksýningum, verkefnum eða atburðum sem hér fá styrki.

Kærar þakkir til menningarráðsins og til sveitarfélagana fyrir að standa vel að menningarráðinu.  Megi háleit markmið menningarsamninganna lifa við endurskoðun þeirra á þessu ári. Ítrekaðar hamingjuóskir til styrkþega, megi þeir vel njóta.    

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband