Leita í fréttum mbl.is

Ég sækist eftir fyrsta sætinu

Byggjum saman nýtt og betra samfélag

 

Almannahagur - lýðræði - jafnrétti og réttlæti

Erfiðir tímar – endurreisn er nauðsynleg strax. 

Það eru aðeins tvö ár síðan ég bauð mig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar og var í framhaldinu kjörinn 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis.  Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur mynduðu síðan ríkisstjórn um velferðarmál og efnahagsmál. 

Ég tók að mér formennsku í félags- og tryggingamálanefnd, auk þess að starfa í menntamála-  og fjárlaganefnd auk almennra þingstarfa.  Þessi tími hefur verið fljótur að líða. 

Umtalsverður árangur náðist á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Í félags- og tryggingamálanefnd var gengið frá fjölda mála varðandi málefni barna og innflytjenda sem og í barnaverndarmálum.  Þá náðust fram umtalsverðar  breytingar á kjörum öryrkja og eldri borgara, þó margt verði að bæta í þeim málaflokkum.  Ný jafnréttislög voru afgreidd og sett lög um frístundabyggð svo eitthvað sé nefnt.  Ný lög um öll skólastigin voru afgreidd og fleira var í farvatninu. 

Áherslur Samfylkingarinnar voru sjáanlegar í öllum velferðar- og menntamálum, þó oft yrði að gera málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna.  Á sama tíma fór hins vegar efnahagsástandið versnandi, krónan veiktist, vextir hækkuðu og verðbólgan fór á fulla ferð.  Bankarnir réðu lítið við ofvöxt sinn og lánsfjárþurrð leiddi til stofnunar erlendra innlánsreikninga. Veikur gjaldmiðill og veikar varnir í regluverki stjórnmálanna og stofnana s.s. fjármálaeftirlits og Seðlabanka, auk græðgi eigenda bankanna ásamt ótrúlegum innri viðskiptum settu svo bankana endanlega á hausinn. 

Ég verð að bera ábyrgð á því og biðjast velvirðingar á að hafa ekki sinnt þessum málum, en fyrst og fremst einbeitt mér að velferðar- , mennta- og byggðamálum.   Mig langar að gefa kost á mér til að bæta um betur og taka þátt í endurreisn íslensks samfélags, þar sem ný gildi samvinnu og jafnaðarmennsku verða leiðarljósin.  Samfylkingin axlaði ábyrgð með því að gefa þjóðinni kost á að kjósa og hreinsa til í Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum, viðskiptaráðherrann hætti og síðan var skipt um forystu þar sem Jóhanna Sigurðardóttir varð okkar forsætisráðherraefni.  

 

Jöfnum kjörin – verjum börn, fjölskyldur og heimili 

 

Í þeim hremmingum sem við erum í er mikilvægast að verja heimilin, börnin og fjölskyldurnar frá langvarandi fjárhagserfiðleikum og fátækt.  Forgangsraða þarf þannig að byrðunum verði jafnað á milli fólks, svo að allir leggi sitt af mörkum til að endurreisa samfélagið.  Gæta þarf þess að ekki halli áfram á byggðir landsins í samkeppninni við höfuðborgina í þessu fári.  Hjálpa þarf fyrirtækjum sömuleiðis út úr þeirra erfiðleikum og gera allt til að sporna við þeirri bölvun sem atvinnuleysið getur orðið.  Sitja þarf um hvert tækifæri til að liðka til svo hjólin fari að snúast að nýju.  Gæta þarf þess að fjármála- og atvinnulífið verði endurreist með bættum leikreglum og siðferði. 

Þjóðin þarf að endurmeta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu og leita leiða til öðlast stöðugleika, afnema verðtryggingu og lækka vexti, en ég tel þetta helst verða gert með aðildarumsókn um ESB og upptöku Evru.  Skilgreina þarf samningsmarkmiðin, sækja um og ef viðunandi samningar nást að leggja þá fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.  Gæta þarf að auðlindum okkar s.s. sjávarauðlindinni og nýtingu hennar og sömuleiðis mikilvægi íslensks landbúnaðar í þessari umræðu.

Uppbyggingarstarfið er hafið með nýrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og stefnan tekin upp á við.  Fjöldi verkefna bíður úrlausna, en hægt og bítandi miðar í rétta átt.  Engin ein leið er fær, vinna þarf að málum með fjölbreyttum úrræðum.  Greiðsluaðlögun, nýting séreignasparnaðar, frysting lána, breyting  á gjaldþrotalögum og full endurgreiðsla vsk við framkvæmdir eru meðal úrræða.  Viðamiklar tillögur ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til að skapa atvinnu voru kynntar í dag en meira þarf til.  Brýnust verkefnin sem enn á eftir að leysa er að ná gengi á íslensku krónuna og afgreiða myntkörfulánin, en ekki síður að ákveða hvernig farið verður með verðtryggðu lánin sem hafa rokið upp með alltof hárri verðbólgu.Það eru krefjandi verkefni framundan sem ég er tilbúinn að takast á við, ef ég fæ umboð ykkar, ágætu kjósendur, í prófkjörinu sem nú stendur og í framhaldi í kosningunum í vor.

Takið þátt – hafið áhrif.
Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingarinnar 

Tryggjum Guðbjarti fyrsta sætið

 

Hér er grein eftir Sigurð Arnar Sigurðsson

Tryggjum Guðbjarti fyrsta sætið


Kjósum öflugan leiðtoga

Smellið á tengilinn hér að neðan en það er grein á vef Skessuhorns eftir Sigurjón Jónsson

Kjósum öflugan leiðtoga


Erindi flutt við úthlutun Menningarráðs Vesturlands 27. febrúar 2009

Ágætu styrkþegar og góðir gestir!

Til hamingju með daginn. 

Miklir umbrotatímar hafa verið í íslensku samfélagi og raunar í hinum vestræna heimi s.l. mánuði.  Við höfum nú gengið í gegnum nokkurra ára tímabil sem var kallað góðæri, en hefur nú fengið heitið gróðæri, mikið ofþenslu og draumóra tímabil, þar sem hlutabréf og markaðspappírar mótuðu hugarfar, glýja peninga og allsnægta sumra þjóðfélagshópa mótaði viðskiptalíf og atvinnulíf, hugarfar sem hafði áhrif á stóran hluta samfélagsins, einkum höfuðborgarlífið og menningarlífið þar.

Þessu gleðitímabili tálsýnar og sýndarveruleika lauk skyndilega s.l. haust, með hruni íslenskra banka og fjármálalífsins alls og í kjölfarið blasti við nýr raunveruleiki með verulegu fjárhagstjóni fjölmargra fjölskyldna og einstaklinga og fyrirtækja, fjórðungstekjutapi ríkisins, lokunum í fyrirtækjum og atvinnuleysi af stærðargráðu sem varla hefur þekkst hér síðustu áratugi. Ríki og sveitarfélög, jafnt og einstaklingar og fyrirtæki, hafa orðið að forgangsraða að nýju sínum útgjaldaliðum og ekki laust við að menningarlífið hafi orðið fyrir barðinu á slíkri endurskoðun.

Fyrirtækin halda að sér höndum, styrkja síður alls kyns félags- og menningarstarf og því er mikilvægara en nokkru sinni að ríki og sveitarfélög dragi ekki um of saman í sínum styrkjum.

Erfiðleikar eins og atvinnuleysi gera enn mikilvægara en nokkru sinni að efla alls kyns menningarstarf, bæði starf  þeirra sem byggja afkomu sínu á slíku starfi en ekki síður hinna sem taka virkan þátt í fjölbreyttu menningarstarfi í sínum frítíma.  Það getur skipt sköpum fyrir slíkt starf að hið opinbera veiti grunnstyrki, sem hvetja fólk til dáða, til að ráðast í ný verkefni, þróa eldri verkefni eða hrinda í framkvæmd alls kyns hugmyndum sem fólk hefur alið í brjósti sér.  Virkni einstaklingsins, í stað þess að leggjast í þunglyndi í fjötrum atvinnuleysis, getur skipt sköpum varðandi líðan og heilsu viðkomandi.  Þennan þátt má því ekki draga um of saman.  

Samningar um menningarmál, sem ríki og sveitarfélög gerðu, voru mikið framfaraspor á sínum tíma, - lyftistöng fyrir menningarlífið t.d. hér á Vesturlandi.  Fyrsti samningurinn var gerður árið 2005 og var til 3ja ára og rann út í lok árs 2008.  Nú hefur hann verið endurnýjaður í eitt ár, en ætlunin var að halda ráðstefnu og meta árangur og áhrif menningarsamninganna  á hinum ýmsu landsvæðum áður en þeir væru endurnýjaðir til lengri tíma.  Slík ráðstefna og úttekt býður nú væntanlegrar nýrrar ríkisstjórnar. 

Ég hef fylgst með framkvæmd þessara samninga frá byrjun,  sem skólastjóri og síðar sem þingmaður.  Ég hef fylgst með hvernig menningarráðin hafa með ólíkum hætti nálgast verkefnið og þróað sínar eigin reglur og viðmið, auk þess að taka frumkvæði að nýjum verkefnum eins og gert hefur verið hér á Vesturlandi.  Reglurnar kveða þó á um að ekki skuli veita stofnstyrki né styrkja lögbundinn rekstur safna, sem njóta framlaga af fjárlögum.

Ég hef fylgst með umræðunni og togstreitunni á milli lista- og menningarstarfsemi og menningartengdri ferðaþjónustu, umræðu um hvort veita eigi styrki til verkefna á vegum opinberra stofnana eða skóla o.s.frv.  Þannig verða allar úthlutanir menningarráðanna um allt land umræðuefni, en eftir sem áður dylst engum mikilvægi þessara styrkja.Þá hefur verið bitist á um hvort og þá hve mikið fjárlaganefnd eigi að veita til ákveðinna verkefna, hvort ekki eigi að beina öllu fjármagni í gegnum miðlæga sjóði; safnasjóð, listasjóð eða tónlistarsjóð og hvað þetta nú allt saman heitir, og jafnframt menningarráðin í stað þess að fjárlaganefnd veiti styrki beint. 

Sumir vilja gera greinarmun á stofnstyrkjum og fjárfestingarstyrkjum, sem fjárlaganefnd eigi þá að sjá um og styrkjum til atburða eða einstakra sýninga eða verkefna sem sjóðir og menningarráð sjá um.  Jafnvel hefur verið talað um að veita ekki styrki frá menningarráðum til verkefna sem fjárlaganefnd styrkir.

Ég tel aðalmálið vera að styrkir fáist, að nægt fjármagn fáist, en viðurkenni fúslega að skipuleggja má betur þessar úthlutanir í heild.  Tryggja að þær séu faglegar og reyna að gæta jafnræðis og hlutlægni og forðast með öllu pólitískar fjárveitingar eða vinagreiða. 

Óhætt er að fullyrða að fjárveitingar menningarráðsins hér á Vesturlandi hefur ýtt undir verkefni og atburði og verið hvatning fyrir marga á svæðinu.

Í gærkvöldi var ég enn einu sinni á frábærum tónleikum, þar sem grunnskóli tók frumkvæði í að þróa nýjung í tónlistarstarfi, sem tengdist skólum Akranesbæjar, þar sem leiddir voru saman atvinnutónlistarmenn, eldri popparar og krakkar sem hafa áhuga á tónlist, hljóðfæraleik eða söng.  Þetta verkefni er afsprengi Evrópuverkefnis, þar sem nokkur lönd sömdu í sameiningu söngleik og fluttu bæði á Akranesi, en einnig í samstarfi við önnur lönd, verkefni sem spannaði 3 ár.  Í tengslum við þetta Evrópuverkefni var flutt inn, staðfærð og þróuð sænsk hugmynd um samstarf eldri og yngri tónlistarmanna, einkum ungra popplistarmanna. 

Að fylgjast með tugum ungmenna, eldri poppara og frábærra atvinnumanna í tónlist, kennara og nemenda úr grunnskólum, framhaldsskóla og tónlistarskóla flytja 22 lög á 2 klst löngum tónleikum er ógleymanlegt, verkefni sem hefði ekki orðið til nema með styrkjum menningarráðsins.  Er það verkefni menningarráðs að styrkja starfsmenn skólanna til að vera með slík hliðarverkefni, viðbótarverkefni, tilboð til krakka um nám og kennslu utan hefðbundins kennslutíma?  Væri ekki nær að beina slíku fjármagni til þeirra sem eru að berjast við að búa til atvinnu fyrir listamenn á svæðinu, byggja upp menningartengda ferðaþjónustu o.s.frv.

Fyrir mér er það ekki nokkur vafi að menningarráð Vesturlands hefur valið rétt varðandi þennan lið á liðnum árum.  Hér er verið að styrkja starfandi listamenn í bland við sjálfboðavinnu í þágu listauppeldis unga fólksins, barnanna okkar um leið og boðið er upp á atburð með nokkrum hundruðum og stundum þúsundum (eins og á frumsömdum söngleikjum) áhorfenda.

Menningarráð Vesturlands hefur valið að setja sér úthlutunarreglur eða viðmið fyrir hverja úthlutun og birtust forgangsatriðin í 6 atriða lista að þessu sinni og bera úthlutanir þess merki hver áherslan var.Hér á Vesturlandi er öflugt menningarlíf, spennandi verkefni af ýmsum gerðum, óteljandi hugmyndir sem birtast í þeim rúmlega 150 umsóknum með yfir 170 verkefnum.Hluti þessar aðila fær styrki hér í dag og vil ég óska öllum þessum aðilum innilega til hamingju með styrkina.  Ég er þess fullviss að þetta er hvatning til enn frekari dáða og ég hlakka til að fá tækifæri til að sjá eða taka þátt í ýmsum af þeim tónleikum, leiksýningum, verkefnum eða atburðum sem hér fá styrki.

Kærar þakkir til menningarráðsins og til sveitarfélagana fyrir að standa vel að menningarráðinu.  Megi háleit markmið menningarsamninganna lifa við endurskoðun þeirra á þessu ári. Ítrekaðar hamingjuóskir til styrkþega, megi þeir vel njóta.    

Vil áfram leiða lista Samfylkingarinnar í NV kjördæmi

Ég vil nýta áfram reynslu mína af fyrri störfum og af mínum fyrstu árum á Alþingi í þágu almennings í kjördæminu og landinu öllu.  Baráttan snýst um nýtt og betra samfélag, almannahag, samábyrgð, jafnrétti og aukin áhrif almennings, aukið lýðræði og réttlæti.  Samfylkingin hefur frá stofnun staðið fyrir þessi grunngildi.

Styrkja þarf velferðarkerfið, tryggja öfluga menntun og gott heilbrigðiskerfi, þar sem aðgengi er óháð efnahag og búsetu. Endurreisa þarf fjármála- og atvinnulífið með nýjum reglum og bættu siðferði, tryggja í stjórnarskrá að auðlindir verði ávallt í þjóðareigu og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.  Tryggja þarf fjölskyldum, einstaklingum og fyrirtækjum efnahagslegan stöðugleika, afnema verðtryggingu og lækka vexti með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru.  Þetta verði þó aðeins gert ef ásættanlegir samningar nást um aðild og ekki hvað síst um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.  Aðild að Evrópusambandinu verði á valdi þjóðarinnar að undangenginni  þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Ég vil leggja áherslu á jafnræði á milli ólíkra hópa í samfélaginu og á milli landsvæða.  Efla þarf atvinnulíf á landsbyggðinni.  Styrkja þarf sveitarfélög til að taka við nýju verkefnum s.s. málefnum fatlaðra, heilsugæslu og málefnum aldraðra.  Auka þarf enn frekar tækifæri til framhaldsmenntunar í héraði, styrkja háskólanám og efla sí- og endurmenntun á svæðinu.


« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband