Leita í fréttum mbl.is

Takk fyrir stuðninginn – nú sækjum við fram


Vegna anna á Alþingi og fundahalda gaf ég mér aldrei tíma til að þakka félögum í Samfylkingunni í NV-kjördæmi þann mikla stuðning sem þeir veittu mér í prófkjörinu fyrir viku.   Ég er himinlifandi að hljóta traust meira en 70% þeirra sem tóku þátt, en þátttakan var betri en víða annars staðar á landinu, en það gleymist að prófkjörið var aðeins opið flokksbundnu Samfylkingarfólki.  Alls 771 veittu mér sitt atkvæði og þar af 601 í fyrsta sætið, en alls greiddu 854 atkvæði í prófkjörinu. Ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig um leið og ég hvet alla til að standa saman í komandi átökum.  Ég þakka meðframbjóðendum mínum heiðarlega baráttu.  Nú þarf allar vinnufúsar hendur til verka ef  við eigum að ná góðum árangri 25. apríl n.k.

Ég vil einnig þakka kjördæmisráði, kjörnefnd og trúnaðarmönnum fyrir óeigingjarnt starf við prófkjörið sem og kosningastjóranum okkar, Þórhildi Ólafsdóttur.


Sífellt fleiri niðurstöður fást úr prófkjörum og uppstillingum á lista í kjördæmum landsins.
Tekist er á um endurnýjun og þá hugmynd að nýta áfram reynslu þingmanna.  Svo virðist sem bland af hvoru tveggja sé það sem flokksfélagar Samfylkingarinnar vilja og í NV-kjördæmi virtist jafnframt ríkur vilji fyrir því að tryggja konum framgang, bæði með setningu reglna um paralista en einnig með því að kjósa konur í efstu sæti.


Ég ákvað að bjóða mig fram, þar sem mér fannst ég rétt að byrja mín störf sem þingmaður.  Ég gaf kost á mér fyrir tveimur árum og ætlaði að gefa mér góðan tíma til að komast inn í mál og starfsaðferðir þingsins.  Ég fékk skemmtileg verkefni sem formaður félags- og tryggingamálanefndar, og sem fulltrúi í menntamála- og fjárlaganefnd og mörg verkefni náðu fram að ganga á fyrsta árinu, einkum í málefnum barna- og unglinga, skólalöggjöf og í fjárveitingum til fjölmargra góðra mála í kjördæminu.  En allir þekkja atburðarásina, hrun bankanna, fjármálakerfisins og eftirlitsstofnana og um leið hrun hugmyndafræði frjálshyggjunnar.  Í kjölfarið var ákveðin upplausn í samfélaginu sem leiddi til ríkisstjórnarslita og myndun minnihlutastjórnar um leið og ákveðið var að  boða til Alþingiskosninga til að gefa kost á nýju fólki eða til að sækja nýtt umboð til kjósenda.  Við þessar aðstæður stýri ég þinginu sem þingforseti og leita sátta um framgang mála í þessu nýju umhverfi.


Nú er að sjá hvort þjóðin okkar velur að gefa þeim valdaflokkum frí frá stjórn landsins, sem komu okkur fyrst og fremst í þessi vandræði með hugmyndafræði sinni, gjafakvóta, einkavæðingu, nánast gjöf bankanna til vildarvina, rangri peningastjórn og með hugmyndafræði óhefts frelsis fjármagnseigenda og forgangsröðun í þágu hinnar ríku.  Inn í þetta umhverfi, sem var í boði framsóknarflokksins og þó einkum sjálfstæðisflokksins, kom Samfylkingin, settist í ríkisstjórn með sjálfstæðisflokknum og uggði ekki að sér, treysti um of á stofanir eins og Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, sem var eflt, og náði ekki að bjarga efnahagslífinu og koma í veg fyrir hrun bankanna.  Á því berum við ábyrgð og getum aðeins beðist afsökunar á værð okkar og aðgerðarleysi.  Þegar bankarnir höfðu hrunið brást Samfylkingin hratt við en nú vitum við af biturri reynslu að það þarf meiri drift og dugnað en Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegar út í erfiðleikana var komið.  Ákvörðunarfælni þessa stóra flokks þvældist fyrir, eða kannski voru það hagsmunatengslin sem seinkaði öllum ákvörðunartökum.


Sífellt kemur betur og betur í ljós hvernig persónulegir, fjárhagslegir og flokkslegir hagsmunir ákveðinna flokka fléttuðust saman í órofa heild spillingar.  Til að fletta ofan af þessu þarf að gefa þessum gömlu valdaflokkum frí eftir kosningar, og til að ná því markmiði þarf að efla Samfylkinguna.

Ég fer óhræddur til kosninga með grunngildi Samfylkingarinnar að leiðarljósi um lýðræði, jafnrétti og réttlæti.  Nýtt og betra Ísland verður að byggjast á þessum gildum, gömlu góðu gildum jafnaðarstefnunnar, þar sem markaðurinn er auðmjúkur þjónn þjóðarinnar en ekki öfugt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson

Nú er tækifæri til að breyta og bæta

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband